ALIFUGLASJÚKDÓMAR

við höfum náð framúrskarandi árangri

SJÚKDÓMAR Í ALIFUGLUM

Alifuglum fylgja sjúkdómar eins og öðrum dýrategundum og með aukinni ræktun jókst hættan á smitsjúkdómum. Við framleiðslu á kjúklingum fór að bera á erfiðari sjúkdómum eins og salmonellu og síðar campylobacter. Sérstakur dýralæknir alifuglasjúkdóma var fyrst ráðinn árið 1973. Stofnfugl er fluttur inn að meðaltali átta sinnum á ári. Árið 2010 voru flutt inn um það bil 179.000 egg og úr þeim fást um 58.000 fuglar (hænur).

 

Alifuglar bera flesta salmonellusýkla í meltingarfærum án þess að sýkjast, einungis skæðar sermisgerðir geta valdið sjúkdóm í alifuglum. Campylobacter veldur aldrei sýkingum í alifuglum og eru þeir undartekningarlaust einkennislausir smitberar.

 

Síðan 1993 hefur verið fylgst með tíðni salmonellu í kjúklingahópum. Í dag eru tekin sýni úr hverjum fuglahópi í eldi með því að taka svokölluð sokkasýni fyrir slátrun. Ef sýnið er jákvætt, er ekki leyfilegt að senda hópinn til slátrunar og er honum fargað á búinu, óháð sermisgerð. Þetta eru mjög strangar reglur sem finnast ekki annarstaðar í Evrópu og sennilega víðar.

 

Einnig eru tekin salmonellusýni úr öllum sláturhópum, óháð fuglategund. Finnist salmonella í því sýni, verður kjötið innkallað og hitameðhöndlað fyrir frekari dreifingu.

 

Síðan 2008 hefur einnig verið fylgst með salmonellu í stofnfuglum, þar sem salmonella getur borist í gegnum frjóeggin í ungana. Hingað til hefur ekki fundist salmonella í stofnfuglahópi.

 

Einnig er tilgreint í reglugerð og í nýju salmonelluprógrammi Matvælastofnunar, sem tók gildi árið 2008, að taka skuli reglulega sýni úr varphænsnahópum. Vegna skorts á þvingunarúrræðum hafa þessi sýni varla verið tekin og er eftirliti með neyslueggjaframleiðslu ábótavant. Árið 2010 greindist salmonella í einum varphænsnahópi í opinberu sýni.

 

Fylgst er með campylobacter í kjúklingum með því að taka saursýni úr hverjum hópi mest fimm dögum áður en hann er sendur til slátrunar. Finnist campylobacter í því sýni þarf að frysta allar afurðir úr viðkomandi hópi. Með frystingu er hægt að drepa campylobactersýklana að mestu leyti og eru þess vegna uppþýddar afurðir lítt eða ekki mengaðar. Íslendingar eru vanir innkaupum á frystum kjötafurðum og er því auðvelt að nýta þessar afurðir án áhættu.

 

Einnig eru tekin sýni úr hópum við slátrun. Finnist campylobacter í þeim, þarf að frysta þær afurðir úr viðkomandi hópi, sem ekki er búið að dreifa. Hins vegar þarf ekki að innkalla afurðir.

 

Tekist hefur að lækka verulega campylobacter í afurðum frá árinu 2000. Gripið var til aðgerða vegna faraldurs í mönnum sem kom upp eftir að leyft var að selja ferskt kjúklingakjöt árið 1996. Aðgerðir til að lækka tíðni campylobacter í kjúklingum voru meðal annars betri smitvarnir, aukið hreinlæti á búum (við umgengni, við tínslu til slátrunar, geislameðhöndlun á drykkjarvatni), fuglum er slátrað yngri en áður og frysting afurða er úr jákvæðum eldihópum.

 

Þessi árangur er að þakka átaksverkefni sem bar heitið „Campy on Ice“ og stóð yfir 2001 og 2004. Að því stóðu kanadískir og bandarískir vísindamenn og íslenskir kjúklingabændur í samstarfi við íslensk yfirvöld. Einnig var unnið með sérfræðingum á hinum Norðurlöndunum.

 

Í gangi er verkefni erlendra og innlendra aðila sem hefur það markmið að draga úr flugum í eldishúsum, þar sem fyrir liggja niðurstöður sem sýna að flugur bera með sér mikið magn af campylobacter (flugnanetsverkefnið).

 

Með öguðum og skipulögðum vinnubrögðum í samstarfi við ofangreinda aðila hefur náðst mjög góður árangur á Íslandi í baráttunni gegn campylobacter. Vert er að vekja athygli á því að víða erlendis er horft til þessa árangurs á Íslandi, sem er þegar orðinn fyrirmynd annarra þjóða í ráðstöfunum þeirra gegn campylobacter í kjúklingum.

 

Heimild:  Kjötbókin - fuglakjöt

 

Heim           Um okkur           Stofnræktun           Fjölmiðlar      Hafa samband   

 

Heim        Um okkur         Stofnræktun        Fjölmiðlar       Hafa samband

ALIFUGLASJÚKDÓMAR

ALIFUGLASJÚKDÓMAR

við höfum náð framúrskarandi árangri